Vændi er nauðgun

Nei, ekki kynlíf, ekki þjónusta, ekki mannréttindi eða frelsi. Ó neólíberalismi, þú mikla kapítalíska einstaklingshyggja. Það er ekki allt svo einfalt og það.


*TW* því efni í pistlinum gæti verið triggerandi fyrir einstaklinga með áfallastreituröskun.

Eftir að karlréttindasamtökin Amnesty International ákvað að réttindi kvenna væru ekki á jafn slæmum stað og þau gætu verið, þá tóku þeir sig til og gerðu standpínur karla að forgangsverkefni. Það er nefnilega svo mikilvægt að karlar geti fengið fullnægingar, og greitt óviljugu fólki (yfirleitt konum og stúlkum) til að láta verða af því. Rúnk er ekki nóg nefnilega, standpínan hefur þarfir sem einungis óviljugar konur geta reddað. Í kjölfarið á því hafa femínistar auðvitað bent á að, hey, kynlíf er ekki mannréttindi karla og það er ekki starf kvenna að veita þeim það. En aðrir hafa meiri áhyggjur af standpínum en því að konur eru í rauninni manneskjur, ekki söluvörur, og því er talað um kynlíf, samþykki og frelsið, valið og það að ríkið megi ekki stjórna líkömum kvenna. Þetta er allt um frelsi kvenna!

99becb66592a46dd54823dcc4e2f4a1c8a66e90b0ca4772d9ee98d3df89a87d7

Það hryggir mig hvað umræðan um kynlíf er komin stutt. Ég hef nefnilega lært (í gegnum femínisma, ekki kynfræðslu, takk feðraveldi og fokkjú) að kynlíf er eitthvað sem gerist milli jafningja. Að samþykki er eitthvað sem er hægt að veita og taka til baka, sama þótt það sé í byrjun eða miðjum klíðum og að það þurfi að virða. Samþykki er eitthvað sem þú gefur af öllu hjarta, til jafningja þíns, sem þú vilt njóta kynlífs með. Njóta, ekki gefa. Ekki þjóna. Kynlíf er samstarf og það getur verið stutt eða langt, milli langtímapars eða eitthvað sem þú gerir með þeim sem þú hittir á barnum rétt áðan. Það eru engar raunverulegar reglur, það getur verið milli hverra sem er, svo lengi sem það er gert í samstarfi og með fullu samþykki og skilning fyrir hvort öðru. Að það sé milli jafningja sem vilja veita hvort öðru og sjálfum sér nautn. Í sameiningu.

En það er ekki málið, segir fólk, samþykki er hægt að borga fyrir og er svona eins og samningur. Þú segir “já” og þá er no-takesie-backsies, ekkert múður, bara áfram með það og sættu þig við það sem gerist. Kynlíf, segir fólk sem styður afglæpavæðingu vændis, er eitthvað sem er hægt að gerast í þágu bara eins aðila. Kynlíf er eitthvað sem einn aðili getur notið en hinn þarf að þola. Svo lengi sem þau hafa gefið samþykki gegn peningum, auðvitað. Þá verður nauðgun að kynlífi og viðskiptum. Allt sett í sætann lítinn pakka af hvítþvoðum þvættingi sem fólk étur ofan í sig vandræðalaust, því kynlíf er bara vinna fyrir konur erþaggi?

Glosswatch bendir á í seinasta bloggi sínu að þetta er ekkert nýtt af nálinni, karlar og feðraveldið hafa alltaf gert allt til að stjórna kynvitund kvenna. Nautn er ekki inni í myndinni fyrir konur, þetta er starf sem er gert í þágu karla og það er réttur karla að konur veiti þessa þjónustu. Í langan tíma var nauðgun í hjónabandi lögleg, eða að minnsta kosti ekki glæpavædd, og er enn á mörgum stöðum í heiminum. Það var talið (og er enn talið að miklu leyti) starf og skylda kvenna að þjónusta kynlífsþörfum eiginmanns eða kærasta síns sama hvað henni fannst um það mál. Hún átti bara að gera það, alveg eins og hún á bara að sjá um börnin. Þetta er náttúra konunnar, að gefa af sér og gefa meira þangað til ekkert er eftir og karlinn situr feitur og sæll og finnur sér aðra. Borgar fyrir hana kannski. Í dag þykjumst við yfir það hafin að samþykkja nauðgun í nánum samböndum, okkur hryllir við tilhugsuninni að það þyki eðlilegt að óviljug kona sofi hjá manni bara vegna þess að honum langar það. En svo snúum við okkur við í næstu andrá og segjum að það sé ókei fyrir vændiskonuna að þola nákvæmlega það, naugðun gegn greiðslu, því það er bara starf. Starf kvenna, tómstund karla. Lífsnauðsynleg náttúra. Lögmál sem er ekki hægt að hreyfa við. Hvert annað starf, eins og að flippa börgers á McDonalds, þótt börgerinn gefur starfsmanni reyndar ekki áfallastreituröskun.

Svo er það þessi hræðilega stjórn ríkisins. Það má alls ekki koma nálægt líkömum kvenna, ríkið, það má ekki stjórna meiru! Konur þurfa frelsi! Frelsi til að velja hvort þær séu seldar sem vörur til karla! Bara kúnninn má stjórna líkama kvenna, nefnilega, því hann borgaði fyrir það. Hún afsalaði sér þeirri stjórn með samþykki, manstu, svo hún getur ekki kvartað núna. Er það ekki annars?

Hvað heldur fólk eiginlega að kúnninn sé að gera þarna? Það er fáránleg hugmynd að með afglæpavæðingu eða lögleiðingu fái konur meiri stjórn yfir líkama sínum. Þessi viðskipti snúast um að afsala þeirri stjórn til ókunnugs karlmanns svo hann geti svalað vilja sínum á líkama hennar eftir hans hentugleika. Hún getur sett reglur, sem hann mun svo reyna að brjóta, eins og margar konur úr vændi hafa sagt endalausar sögur af, og sem þeir monta sig af. Reglur eru ekki sexí, hann vill ekki reglur. Stjórnin er hans því hann borgaði fyrir það. Kúnninn borgar fyrir stjórnina og fyrir þá þjónustu sem hann hefur ákveðið að hann eigi skilið. Honum er skítsama um rétt hennar til frelsis eða hvort hún hafi stjórn yfir eigin líkama, svo lengi sem hann fær að taka þessa stjórn á meðan hann nauðgar henni.

Kæra karlréttindafólk, já líka þið sem kallið ykkur femínista á meðan þið hendið konum í vændi undir strætóbílinn Feðraveldi í þágu sjálfselsku ykkar og einstaklingshyggju, þið eruð ógeðsleg og ég óska ykkur öllum að stíga á legó á hverjum degi. Og að WiFi-ið ykkar sé alltaf slitrótt.

Sérstakt fokkjú til Amnesty International sem hefur sannað trekk í trekk að mannréttindi táknar ekki mannkynsréttindi, heldur karlréttindi. Þið hafið svikið konur. Það er meiri brandarinn að Íslandsdeild Amnesty International sé undir formennsku manns sem ritstýrir vefriti sem er aðallega þekkt fyrir karlrembu og einstaklingshyggju. Miðað við fyrri verk og sögu AI þá ætti ég svosem ekki að vera neitt hissa.

Þið konur sem hafið reynt að vinna í þágu kvenna innan fyrirtækisins, það var stórt verkefni, og greinilega ómögulegt. Styrk ykkar og orku er betur varið annarsstaðar, þar sem konur eru ekki álitnar hlutir til kaupa og sölu.

 

Taktu þátt í umræðunni

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s