Handtekinn grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína

Í dag birti Jakob Bjarnar Grétarsson, fjölmiðlamaður á Vísir.is, viðtal við mann sem var grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína árið 2016. Hann birtir það undir fyrirsögninni “Handtekinn grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína sem fyrirfór sér“. Jakob Bjarnar ýjar ekkert að því að það sé vafamál að þetta hafi verið sjálfsmorð – ekkert “meint” neitt – hann gerir ráð fyrir því, þótt það telst varla sannað, það var bara ekki hægt að sanna að það væri nein önnur útskýring. Og viðtalið allt er í þessum stíl: sorgmæddur ekkill segir frá óréttlæti sem hann var beittur eftir að eiginkona hans framdi meint sjálfsmorð.

Það sem ég vil gera, með þessum litla pistli mínum, er ekki að finna útúr því hvort Bjarni Hilmar Jónsson hafi myrt Susan Mwihaki Maina. Ég er ekki dómstóll, ég er ekki lögregla, ég hef engin völd til að sakfella neinn. Ég er ekki hér til að ásaka hann um morð, ég er hér til að segja hvers vegna mér finnst þetta viðtal ekki bara lélegt, heldur líka grunsamlegt. Bjarni Hilmar Jónsson var aldrei dæmdur fyrir morð, andlát Susan Mwihaki Maina er opinberlega sjálfsvíg. Látum þær staðreyndir standa, en ég leyfi mér að spá aðeins í þessu viðtali hérna.

Það er svo sláandi við þetta viðtal hversu klúless hann Jakob Bjarnar er, og hversu væmið og falskt öll umgjörðin er. Það er svo augljóst að Jakob Bjarnar er að reyna að púlla hinn umhyggjusama fjölmiðlamann, sem vill sýna mann sem var beittur meintu óréttlæti í ljósi píslarvottar og gæsku. Hann vill varpa hetjuljóma á hinn sorgmædda ekkil. Sýna sársauka hans. En í staðinn fáum við helvíti fína innsýn í hvernig Bjarni Hilmar sá eiginkonu sína líklega frekar sem gluggaskraut sem varð aðeins of mikið vesen á endanum.

Fólk með vott af heilasellu getur fundið útúr því fljótt að Bjarni Hilmar virðist mikið lýsa því hvernig Susan Mwihaki Maina hafi verið, ef ég umorða það sem hann segir í eitt orð, “klikkuð”. Hann talar um hvað hún hafi nú verið “yndisleg stelpa” þegar þau hittust, “blessunin”, á meðan hann var í fríi í Kenýa, en svo hafi stefnt í óefni eftir að þau fluttu til Íslands, hann fimmtugur og hún rétt rúmlega tvítug. Hann var kannski ekki undirbúinn undir það að Susan væri raunveruleg manneskja með tilfinningar og þarfir sem snérust ekki allar um hann. Hann kannski fattaði ekki að konur eru líka fólk, að kona eins og Susan hafi verið að koma inn í algjörlega ókunnugt umhverfi, tala nú ekki um veðrið, og þyrfti tíma til að aðlagast.

En í staðinn málar Jakob Bjarnar mynd af manni sem var beittur óréttlæti af kerfinu eftir að hafa verið vitni af sjálfsmorði eiginkonu sinnar, sem var líka svona rosalega klikk. Bjarni talar um hvernig hún einangraðist alveg að eigin frumkvæði því hún ætti svo erfitt með að treysta fólki. Jakob Bjarnar spyr engar frekari spurninga út í þetta, staðfestir þetta ekki hjá neinum. Hann talar ekki við fjölskyldu Susan, ekki vinnufélaga hennar, ekki við samfélag fólks frá Kenýa á Íslandi, sem hafði hitt hana. Bjarni Hilmar fær þarna sæti til að haga málum alveg eftir sínum hentugleika. Hann gæti skáldað hvað sem er, og Jakob Bjarnar skrifar það niður eins og staðreyndir. Það er ekki talað um hvers vegna Bjarni Hilmar var grunaður um morð fyrr en það er búið að afskrifa Susan sem geðsjúka og ósanngjarna með öllum þeim leiðum sem Bjarni getur notað, þá kemur allt í einu í ljós að þau hafi rifist heiftarlega þetta kvöld, að hún hafi orðið fyrir bíl (Bjarni segir að hún hafi “hent sér fyrir bíl”, hentugt að það passi svona vel við ímyndina af klikkuðu konunni), og hafi í kjölfarið á því, þegar lögreglan kom, ásakað Bjarna Hilmar um að beita sig ofbeldi. Hún hafði líka verið með 500 þúsund krónur á sér þegar hún lést og hafði verið byrjuð að taka fram ferðatöskur. En svo á hún að hafa framið sjálfsmorð í staðinn fyrir að flýja.

Og það merkilega er að Jakob Bjarnar spyr hvort Susan hafi áður kært fyrir ofbeldi af hendi Bjarna Hilmars – og auðvitað segir hann nei. En þótt það sé búið að ítreka oft hversu stutt samband þeirra var, þá er undarlegt að hafa það ekki með þarna. Þau höfðu bara verið gift og búið saman í eitt ár. Eitt skitið ár áður en hún lést. Konur sem búa við ofbeldi, sérstaklega innflytjendur eins og Susan, eru yfirleitt ekki að kæra ofbeldi fyrr en þegar þær eru orðnar örvæntingafullar og sjá enga aðra leið. Það er örþrifaráð, þær sækja ekki hjálp fyrr en þær sjá enga leið út, eða þegar þær eru farnar að vera hræddar um líf sitt. Susan varð fyrir bíl, sagði þá lögreglu í kjölfarið á því að Bjarni Hilmar hafi beitt hana ofbeldi. Í staðinn fyrir að afskrifa þá frásögn hennar, hvernig væri að íhuga það að kannski, bara kannski, hafði hún aldrei haft tækifæri til að segja neinum frá fyrr en þá? Að meint ofbeldi Bjarna Hilmars gegn henni hefði aldrei komið fram ef hún hefði þurft að sækja sér hjálp upp á sitt einsdæmi?

Hún einangraðist á Íslandi – þótt Bjarni Hilmar þykist það hafi verið að hennar frumkvæði og segir frá að hún hafi sagst hafa flutt til Íslands til að vera með honum, ekki til að eiga vini (merkilega hentugt það). Viðtalið er fléttað saman á þann hátt að það er engin leið að gera neina skýra tímalínu á neinu af því sem gerðist. Það er nánast eins og Bjarni Hilmar og Jakob Bjarnar hafi vísvitandi sett saman viðtalið þannig að það yrði aldrei hægt að tengja saman atburði eða finna útúr því hvenær hlutirnir gerðust. Hún varð fyrir bíl og ásakaði Bjarna Hilmar um ofbeldi, og svo sama kvöld tekst henni hið meinta ætlunarverk að taka eigin líf, með 500 þúsund krónur á sér og nýbúin að taka fram ferðatöskurnar, eftir heiftarlegt riflildi við Bjarna Hilmar og líka eftir að hafa ásakað hann um ofbeldi. Bjarni Hilmar hneikslast á því að lögreglunni fannst hann grunsamlega rólegur, og talar svo um 3 bjórdósir sem hann hafði skilið eftir, en að hann hafi ekki verið drukkinn. Hvenær drakk hann þennan bjór eiginlega? Á meðan hann beið eftir lögreglunni? Á meðan Susan var í lífshættu og sjúkraliðar reyndu að blása í hana lífi? Hvar kemur þessi bjór inn í málið? Hún upplifði einelti og kynferðislega áreitni í vinnunni, að sögn Bjarna, eitthvað sem hann þykist að sé aðalástæðan fyrir því að hún hafi víst tekið eigið líf. Hún hafi verið rekin úr þessarri sömu vinnu og verið “viti sínu fjær” yfir því.

Þetta gerðist allt á einu ári. Einelti og kynferðisleg áreitni í vinnu, atvinnumissir, meint heimilisofbeldi, sjálfsvígstilraunir og svo kannski flóttatilraun, sem endaði svo með því að meint sjálfsvíg tókst. Á meðan hljómar Bjarni Hilmar frekar eins og áhorfandi en aðstandandi og eiginmaður, hann talar um þetta allt saman eins og hann hafi verið að horfa á þetta í sjónvarpsþætti frekar en að eiginkona hans hafi verið að ganga í gegnum þetta allt. Það virðist engin tilfinning, engin reiði, engin sorg, ekkert. Ekkert nema kaldar útskýringar og hentugar ágiskanir og kannski léttar pælingar um hvers vegna hún hafi nú á endanum tekið eigið líf frekar en að fara aftur til Kenýa til fjölskyldu sinnar. Með 500 þúsund krónurnar sem hún hafði tekið út og verið með á sér kvöldið sem hún lést. Hún var “yndisleg stúlka” að sögn Bjarna, þótt hann virðist gefa lítið pláss fyrir þá mynd af henni í þessu viðtali. Hann er svo upptekinn af því að lýsa því hvernig hegðun hennar var ósanngjörn og órökrétt, að beina athyglinni frá honum og að henni, að ég kemst ekki hjá því að spyrja hvort honum hafi ekki verið drullusama um hana.

Fyrir mitt leiti, þá hljómar Susan Mwihaki Maina eins og hún hafi verið sjálfstæð, ákveðin og sterk kona. Að hún hafi verið reið yfir óviðunandi aðstæðum og að hún hafi haft takmarkaðan eða engan stuðning í gegnum einelti og óréttlæti, og að hún hafi ekki horfið innávið, heldur haft hátt um það. Susan var kannski kona með sterka sjálfsmynd sem var undir stanslausri árás frá umhverfinu, sjálfsmynd og sjálfsstyrk sem hún hafði engan áhuga á að gefa frá sér án þess að berjast fyrir því. En ekkert í þessu viðtali segir okkur hver Susan Mwihaki Maina var, hverskonar áhugamál hún hafði, hvað fannst henni best og verst við Ísland, hverskonar drauma væri hún að eltast við og hverjar hennar helstu vonir væru, hverskonar persónuleiki hún væri. Það er eins og Bjarni Hilmar hafi ekki einu sinni þekkt hana. Hafi bara verið alveg sama. Hann hljómar ekki eins og maður sem missti ástvin og var svo beittur óréttlæti af lögreglunni. Hann hljómar frekar eins og maður sem hefur miklu meiri áhuga á því að láta alla trúa því að þetta hafi aldrei komið honum neitt við. Að hann hafi verið þessu öllu saman algjörlega óviðkomandi. Susan hafði greinilega lítið með hann að gera og hann var bara óvart ásakaður um morð, af lögreglu sem hafði horft of mikið á CSI eða eitthvað.

Ég get ekki annað en sagt að ég trúi ekki einu einasta orði sem Bjarni Hilmar segir. Þetta viðtal gerir mig nánast sjóveika, af viðbjóði og sorg. Viðbjóði vegna þess hvernig Jakob Bjarnar eyðir ekki einu einasta orði í það að leyfa Susan njóta vafans. Sorg fyrir líf Susan Mwihaki Maina. Sorg fyrir fjölskyldu hennar, sem hlýtur að þjást eftir þennan missir.

Til fjölskyldu Susan: ég samhryggist innilega. Hún átti betra skilið en að vera einangruð og alein með manni sem virtist aldrei hafa gert minnstu tilraun til að kynnast henni. Hún átti skilið sól, ást, og innilega vináttu fólksins í kringum hana.

220CF98DB251DA7B30EE9B33481F6EA76D6E7634BA2510A0D917765681B1F6D7_390x0
(Mynd frá visir.is) Susan Mwihaki Maina. Rest in power, our dear sister. May your story one day be told, in truth and love

Ég vildi óska að ég vissi meira um hver hún væri, þessi kona sem fær varla fagurt orð frá manninum sem giftist henni. Ég syrgi hana, kynsystur mína, sem lést svo ung, undir svo erfiðum kringumstæðum, og nú koma þessir karlar, Jakob Bjarnar og Bjarni Hilmar, og gera hana að einhverri stereótýpu, láta eins og hún hafi verið klikkuð og óstabíl, á meðan þeir þykjast berjast fyrir réttlæti. Vinnubrögð lögreglunnar voru varla 5 setningar, en við eigum að trúa því að þetta snúist allt um að betrumbæta vinnubrögð réttargæslufólks.

Susan fékk aldrei tækifæri til að segja sína sögu. Hún er farin. Að eilífu. Og heimurinn er fátækari fyrir vikið.

13 comments

 1. Mjög góðir punktar. Skrif þessarar konu ríma við tilfinningar mínar eftir að hafa lesið grein Jakobs Bjarnar eða viðtal hans við Bjarna Hilmar. Sem kenísk kona sem þekkti Susan um skamma stund, sem kenísk kona sem hjálpaði til við að safna fjármunum og skipuleggja sendingu á líki hennar Susan til fjöldskyldu hennar heima í Kenía og sem kenísk kona sem veit hversu óvingjarnlegt kerfið er gagnvart erlendum konum í vanda, þá kveikti þessi grein reiði inn í mér.

  Því miður kynntist ég Susan betur eftir að hún var dáinn. Ég kynntist henni í gegnum samtöl við foreldra hennar, frændsystkyn, fyrrum vinnufélaga og loks bróður hennar sem kom hingað til að fylgja eftir flutningi á líki hennar heim til Kenía. Eins og greinarhöfundur segir, þá erum við ekki í aðstöðu til að dæma um afhverju Bjarni var grunaður. Ég fékk hins vegar töluverða innsýn inn í samband þeirra Bjarna og Susan í gegnum fjölskyldu hennar í Kenía, sem ég er ennþá í sambandi við, prestinn, lögregluna, fyrrum vinnufélaga og bróður hennar. Við hittum líka Bjarna, sem var óvingjarnlegur gagnvart magi sínum og gerði okkur erfitt um vik að skipuleggja heimflutning á líki Susan, frekar en að aðstoða eða leggja eitthvað af mörkum.

  Hann hótaði okkur stöðugt að ef öllu í tengslum við flutninginn yrði ekki hagað á þann veg sem hann legði til, þá myndi hann láta brenna líkið. Við vorum algerlega upp á dynti hans kominn og þurftum að tipla á tánum í kringum hann til þess að geta sent lík hennar heim svo fjölskyldan gæti veitt henni útför heima. Fjölskylda sem hafði þekkt hana alla ævi, en ekki eitt ár.

  Líkt og fram kemur í viðtalinu voru um 600 þúsund krónur á reikningi Susan við andlát hennar. Hann bað okkur að safna því sem við gætum og hann myndi bæta við af reikningi hennar ásamt eigin framlagi.

  Mín tilfinning er sú að hann hafi ekki gert ráð fyrir að við næðum að safna neinu. Hann meinaði okkur að auglýsa á Facbook eða fjölmiðlum og vildi engar myndbirtingar. Margir Íslendingar lögðu málinu þó lið og fjölskylda hennar heima safnaði peningum þar. Loks þegar kemur að því að greiða fyrir kistu og flutning, ákveður maðurinn að taka ekki þátt í kostnaði, því hann þurfi þessa fjármuni til að dekka annan kostnað hér heima.
  Það var hræðileg tilfinning að standa frammi fyrir því að geta ekki sent Susan heim þar sem fjölskyldan beið þess að veita dóttur sinni, systur og frænku sína hinstu kveðju. Við gátum ekki sagt Bjarna hvað okkur fannst í raun, í fyrsta lagi því hann var syrgjandi og í öðru lagi því hann hafði öll ráð í hendi sér. Framkoma hans gagnvart okkur og fjölskyldu Susan rímar ekki við hinn syrgjandi mann sem birtist í viðtali Jakobs Bjarnar.

  Ég komst í mikið uppnám þegar ég las frétt og viðtal við hann, þar sem hann er að stefna lögreglunni, til miskabóta nota bene. Hann vildi ekki leggja pening í flutning á Susan til Kenía svo hún gæti hlotið sína hinstu kveðju í faðmi fjölskyldunnar. Nú vill hann fá miskabætur.

  Liked by 4 people

  • Þakka þér kærlega fyrir þetta, og ég vil skila innilegri kveðju til þín og allra þeirra sem komu að söfnun fyrir flutningi Susan til hennar hinstu hvílu. Samhryggist innilega, mér þykir hrikalega leitt að þessi sársauki sé grafinn upp aftur með þessu hrikalega viðtali við Bjarna Hilmar.

   Ég get rétt ímyndað mér að þú sért reið yfir þessu öllu saman, viðtalinu við hann og kærunni sem hann er með í gangi. Hann hefur augljóslega aldrei haft hag hennar Susan í huga og það gerir mig vægast sagt brjálaða hvernig hann gat ekki einu sinni lagt sitt af mörkum til að gera flutninginn að veruleika – það hlýtur að hafa gert ekkert nema bætt ofan á sorgina.

   Takk fyrir að koma með þessa innsýn í mál. Ég satt að segja gat ekki leyft þessu standa óáreitt, þessu viðtali, að Susan hefði sér engan málsvara í þessu viðtali við Bjarna Hilmar, og að engin fékk einu sinni tækifæri til þess að koma að málum annar en hann. Ég get ekki lýst því hvað ég var buguð af sorg og hvað mér fannst þetta óréttlátt. Ég vona að þessi pistill minn, þótt lítill sé, gefi ykkur tækifæri til að lýsa ykkar sorg og sársauka. Það er löngu, löngu komið nóg af því að konur af erlendum uppruna þurfi að fela sína sorg og að óréttlætið gegn ykkur sé falið af öllum kröftum. Það er komið nóg.

   Takk aftur Achie. Ég stend með þér og ykkur öllum. Alltaf.

   Liked by 1 person

  • Takk fyrir þessa greiningu og að hafa haldið nafni hennar og virðingu á lofti eftir þessa ömurlegu meðferð blaðamanns og ,,maka”. Ég vona að samúðarkveðjur okkar allra og þessi mikilvægu skilaboð þín berist til ættingja og vina Susan.

   Liked by 1 person

 2. Eitt sem ég hnaut um í Vísisviðtalinu. Örlagakvöldið, þegar Susan Mwihaki verður fyrir bílnum, þá hefur lögreglan eftir henni um þann atburð: “Hún lýsti miklu rifrildi milli þeirra hjóna og bar því við að hún hafi verið annars hugar þegar hún gekk út á götuna.” Hjó eftir þessu nefnilega, hún segir “að hún hafi verið annars hugar þegar hún gekk út á götuna.”
  En eiginmaðurinn lýsir þessum atburði í viðtalinu svona: “Hún hljóp niðrá Bústaðaveg og henti sér þar fyrir bíl.“ Sem sagt, henti sér fyrir bíl. En í lögregluskýrslu lýsir Susan sjálf þessu sem óhappi, verið annars hugar þegar hún gekk út á götuna. Hvernig getur eiginmaðurinn þá lýst þessum atburði sem viljaverki ?

  Liked by 2 people

  • Það er einmitt það, hann orðar þetta allt svo hentuglega til að ýta undir ímyndina af henni sem eitthvað klikkaðri. Hann gagngert reynir að rústa hennar ímynd og hennar minningu til að upphefja sjálfan sig.

   Liked by 2 people

 3. Eftir að hafa lesið fyrstu greininaeftir tiltekinn blaðamann. Þá hugsaði ég nú strax að þetta væri nú eh loðið og þyrfti klárlega frekari rannsókn. Sérstaklega út af þessum 3 atriðum. 1. Hún sagðist hafa verið beitt ofbeldi þetta kvöld.
  2. Er búin að taka út pening og er með hann tilbúin.
  3. Búin að pakka niður í töskur.
  Bara þessi 3 atriði burtséð frá öllu hinu sem kom í ljós seinna. Gerir þetta meinta sjálfsmorð yfirmáta grunsamlegt að mínu mati.

  Liked by 2 people

 4. Eitt sem stakk mig strax var það að hann skuli bara hafa farið að sofa þegar hún var í þessu ástandi sem hann lýsir? Hefði maður ekki vakað eftir maka sínum og athugað hvort allt væri í lagi? Þetta viðtal við Bjarna lét mér bara líða illa og ég sárvorkenni Susan, þessari fallegu ungu konu sem er nú farin frá okkur og fær aldrei að segja sína hlið.

  Liked by 3 people

 5. Umrætt viðtal vakti hjá mér mun fleiri spurningar en það svaraði. Að mörgu leiti minnti umfjöllunin um Susan mig á umfjöllunina á Sri Ramawati, við fengum ekki að kynnast manneskjunni sem lifði og dó, einungis sögu eins manns af kvöldinu þegar hún lést og engin leið að vita hvað raunverulega gerðist. Mér finnast þær þó báðar eiga dýpri umfjöllun og virðingu skilið.

  Liked by 2 people

Taktu þátt í umræðunni

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s