“Af hverju ertu ekki næs?” – Athugasemdakerfið

Það hneikslast margir á því að ég sé ekki næs við fólk sem hagar sér eins og fífl í kommentum við bloggið mitt. Svo ég ákvað að taka saman helstu upplýsingar sem gætu gagnast þeim sem finnst kurteisi frá konum einhverskonar heilagur réttur. Eðli kvenna kannski. Allavega verður fólk alveg hrikalega sjokkerað þegar ég svara fullum hálsi og án þess að sykurhúða neitt.

Spurningar um efnið, pælingar, rökræður, allt er innilega velkomið svo lengi sem það er sett fram í takti við efnið, sé nokkuð rökfast, úthugsað, málefnalegt og sýni semí-virðingu. Ég ætlast ekki til af neinum að vera kurteis en ég ætlast til þess að fólk bulli ekki út í loftið. Þau sem gleyma sér í ruglinu eiga í hættu á að það sem þau skrifa sé aldrei birt. Bara beint í ruslið.

Ég fékk mikinn innblástur frá athugasemdastefnu Feminist Current. Hér eru “reglur”, viðmið og almennt það sem fólk getur búist við að finna í kommentakerfum á þessarri vefsíðu. Ef kommentið þitt var ekki birt þá er líklegt að það detti í einn eða fleiri af þessum flokkum:

  • Ég er ekki kurteis, né næs. Þetta er mín eigin persónulega vefsíða, ekki opinber fréttamiðill né almennur vettvangur. Ég ber enga ábyrgð á tilfinningum annarra né ber mér skylda til að “virða skoðanir” þeirra sem fara um með fávitaskap og rökvillur. Ef þú ert bara að kommenta til að segja að ég sé dóni eða vond þá er líklegt að kommentið fari í ruslið. Mér er nefnilega alveg sama hvað þér finnst um það.
  • Haldið ykkur við efnið. Ég hef lítinn áhuga á að heyra um hvað þú hatar Samfylkinguna eða hvað femínismi er vondur við karlmenn ef ég er að tala um áhrif kláms á samfélagsviðhorf til kvenna. Newsflash: það sjá allir í gegnum þetta og heyra að þetta er sama gamla grenjið og útúrsnúningur.
  • Meðvirkni er ekki velkomin. Sérstaklega ekki meðvirkni með gerendum ofbeldis af neinni týpu. Þau sem segja hluti eins og “aðgát skal höfð í nærveru sálar” eða vilja endilega þagga umræðu í nafni aðstandenda mega vera úti. Þið eruð ekki velkomin í partíið.
  • Enga “talsmenn djöfulsins” (devils advocate). Það sjá allir í gegnum kjaftæðið. Það er vandræðalega augljóst þegar fólk þykist vilja ræða “hina hliðina” hlutlaust að það er ekkert hlutlaust við afstöðu þeirra og rök. Það er einfalt mál að gera grein fyrir afstöðu sinni, setja hana fram og ræða það frekar. Þetta er ekki staðurinn til að þykjast að afstaðan og rökin sé ótengd þér eða þínum skoðunum. Ég hef enga þolinmæði fyrir kjaftæði eða heigulsskap. Þú ert líklegri til að fá málefnalegt svar ef þú talar skýrt og hreinskilnislega.
  • Ekki skrifa með andlitinu. Ef ég skil ekki það sem þú skrifar, þá verður það líklega ekki birt. Stafsetningar- og málfarsvillur eru ekkert að fara að koma þér í vandræði, en ef það er ekkert samhengi, engin greinarskil, bara óskiljanleg orð og ruglaðar samsæriskenningar þá fer það líklega beint í ruslið.
  • Ekki bulla eða ljúga. Ég sé vel í gegnum kjaftæði og ósannindi. Það er líka mjög auðvelt að gúgla hvort eitthvað sé kjaftæði eða ekki, svo ef þú ætlar að setja eitthvað fram sem rök eða sannleik þá er eins gott að þú vitir hvað þú ert að segja. Þau sem dreifa kjaftæði í kommentakerfinu eiga í hættu á að ég geri grín að þeim. Eða setji athugasemdina bara beint í ruslið. Annaðhvort.
  • Engar hrútskýringar. Enga tilætlunarsama karlmenn að heimta svör eða þykjast vita meira um femínisma en konur sem hafa verið femínistar í mörg ár. Ég hef engan áhuga á að hlusta á einhvern karlpung tala um hvað hann þekkir konu sem var ósammála X-umræðuefni, eða hvernig hann heimtar fleiri sönnunargögn til að geta myndað sér skoðun á málefnum sem snerta líf kvenna í miklum mæli. Hér er enginn að fara að leyfa þér njóta vafans ef þú hagar þér eins og tilætlunarsamt fífl, alveg sama þótt vinir þínir segja að þú sért geggjað næs gaur.
  • Reynið að nota raunveruleg netföng. Af reynslu hafa margir (en ekki allir) sem skrifa undir gervinetföngum verið fífl, en þau sem vilja verja nafnleysi sitt geta notað gervinöfn og netföng ef þau hafa ástæðu til. Einhver gaur sem er nafnlaus og með feik netfang til að komast hjá ábyrgð fer líklega í ruslið og á bannlista.
  • “Þetta er bara mín skoðun” er ekki rök né gerir þig stikkfrí frá gagnrýni. Ekki haga þér eins og 15 ára krakki (nema þú sért 15 ára, hvað veit ég). Taktu ábyrgð á því sem þú segir og ekki reyna að koma þér undan með kjánalegum útúrsnúningum. Þau sem halda að þetta gildi sem einhverskonar get-out-of-jail-free-card eru líkleg til að sjá kommentið aldrei birt.
  • “Karlfemínistar” fá enga undanþágu né smákökur á þessu vefsvæði. Þú getur ekki sagt “ég er sko femínisti” og haldið að ég tríti þig eitthvað öðruvísi en aðra í kommentakerfinu eða leyfi þér frekar njóta vafans. Ég treysti ykkur ekki fokk. Deal with it.

Ég bæti eflaust við þetta ef það er þörf á því. Það er líklegt að ég birti kommentið þitt ef það er nokkuð málefnalegt og heldur sig við efnið. Taktu þátt í umræðunni með þetta í huga og þú ættir að vera seif frá því að ég geri grín að þér eða að kommentið þitt fari í ruslið. Líka þegar þú ert ósammála mér! Magnað, ég veit!

P.S.
Reiðar og ókurteisar konur eru boðnar sérstaklega velkomnar.